dcsimg

Rostungur ( Icelandic )

provided by wikipedia IS

Rostungur öðru nafni rosmhvalur (fræðiheiti: Odobenus rosmarus) er stórt hreifadýr sem lifir við sjó á Norðurslóðum. Af honum eru tvær undirtegundir, önnur í Norður-Atlantshafi sem nefnd er Odobenus rosmarus rosmarus og hin í Kyrrahafi, á hafsvæðunum við og á milli Alaska og Austur-Síberíu, og er sú nefnd Odobenus rosmarus divergens. Lítill munur er á tegundunum en þó er Atlantshafstegundin heldur minni.


Orðsifjar

Orðið Odobenus er samansett úr odous (gríska og þýðir „tönn“) og baino (gríska og þýðir „ganga“), enda nota rostungar oft skögultennurnar til að draga sig upp á ísjaka.

Einkenni

Kyrrahafsbrimlarnir eru frá 2,5 upp í 3,5 metra á lengd og vega milli 800 og 1700 kg. Kyrrahafsurturnar eru um 2,5 til 3 metrar á lengd og vega milli 400 og 1250 kg. Atlantshafsbrimlarnir eru um 3 metrar á lengd og vega 800 til 1000 kg en urturnar um 2,5 metrar og vega 600 til 800 kg.

Rostungar virðast nánast hárlausir séðir úr fjarlægð. Svo er þó ekki en feldur þeirra er mjög snögghærður. Húðin er afar þykk, 4 til 5 sentimetrar. Undir henni er fimm til sex sentimetra þykkt spiklag. Húð brimlanna er sérlega þykk á hálsi og öxlum, sennilega til varnar í slagsmálum.

Við fæðingu eru rostungarnir rauðbrúnir á lit, en lýsast eftir því sem þeir eldast. Það er því hægt að aldursgreina þá eftir lit.

Rostungar eru með einkennandi stórar skögultennur (langar vígtennur) úr efri skolti. Bæði kynin hafa þessar löngu tennur, en hjá brimlum eru þær þó oftast lengri og gildari. Tennurnar eru oftast um 50 cm á lengd en þó hafa mælst tennur allt að 100 cm. Fullorðinstennurnar sjást hjá rostungskópunum um eins og hálfs árs aldur. Á eldri dýrum eru tennurnar oft orðnar slitnar og stundum brotnar. Skögultennurnar nota rostungarnir til að róta í hafsbotninum þegar þeir leita að æti, til að brjóta öndunarop í ísinn, til að vega sig upp á ísjaka og til varnar.

Útbreiðsla

 src=
Blái liturinn sýnir útbreiðslu rostunga nú á tímum

Rostungar lifa nú á fjórum afmörkuðum svæðum:

  • Kyrrahafsstofninn er að mestu á Beringshafi að vetrarlagi, en á sumrin fara þeir rostungar norður um Beringssund og halda sig við ísröndina í Tjúktahafi.
  • Vesturstofn Atlantshafsstofnsins lifir á Hudson-flóa og á svæðinu milli kanadísku heimskautaeyjanna og vesturstrandar Grænlands. Rostungar voru áður mjög algengir allt suður að St. Lawrence -flóa og ekki ótíðir allt suður að Boston og Þorskhöfða, en eru nú afar sjaldgæfir flækingar á þeim slóðum.
  • Austurstofn Atlantshafsstofnsins lifir við austurströnd Grænlands annars vegar og hins vegar á svæði við Svalbarða og suður að norðurströnd Rússlands. Mjög sjaldgæft er á seinni öldum að þeir flækist sunnar. Óvíst er hversu mikil samskipti eru milli hópanna við Grænland og Svalbarða nú á tímum.
  • Við norðurströnd Síberíu lifir stofn sem af sumum dýrafræðingum er talin sérstök undirtegund (Laptev-rostungur, O. r. laptevi).

Lífshættir

 src=
Rostungar á leið upp í fjöru

Rostungar fylgja ísröndinni eftir þegar hún færist eftir árstíðum, en hafast ekki við á óbrotnum lagnaðarís. Þeir kafa iðulega allt niður á 80 metra dýpi en geta við sérstakar aðstæður kafað allt niður á 180 metra dýpi. Þeir geta verið í kafi upp undir 30 mínútur.

Rostungar veiða einstaka sinnum fisk en lifa aðallega á botndýrum, aðallega botnhryggleysingjum eins og skeljum, skrápdýrum og krabbadýrum og þar að auki sjávargróðri. Þeir róta botninum upp með skögultönnunum og leita fæðuna uppi með næmum grönunum.

Einu náttúrulegu óvinir rostunga eru maðurinn, háhyrningar og hvítabirnir. Vitað er til að rostungar geti drepið hvítabirni.

Rostungar geta orðið um 50 ára gamlir, brimlar verða kynþroska um það bil tíu ára en urturnar þegar við 4–7 ára aldur. Fengitími er í janúarfebrúar en kóparnir fæðast í maí. Látrin eru annaðhvort á ís eða uppi á landi. Yfirleitt fæða urturnar einungis einn kóp sem er 100 cm langur við fæðingu og um 50 kg á þyngd. Kópurinn er syndur þegar við fæðingu. Kóparnir lifa einungis á móðurmjólkinni fyrstu sex mánuðina áður en þeir fara að éta aðra fæðu, en urturnar venja þá hins vegar ekki fullkomlega af spena fyrr en við tveggja ára aldur.

Veiðar

Rostungar hafa verið eftirsóknarverð veiðidýr frá örófi alda. Þeir gáfu af sér kjöt og spik, þykkar húðir og ekki síst verðmætar skögultennur. Einkum voru rostungar mikilvægur þáttur í lífi heimskautaþjóða sem Inuíta og Yupik.

Vitað er að á miðöldum voru rostungaafurðir ein mikilvægasta útflutningsvara hinna norrænu Grænlendinga til Evrópu. Voru það annars vegar svo nefnd svarðreipi sem voru afar sterk og gerð þannig að rostungshúðin var flegin af skrokknum í löngum lengjum. Hins vegar voru það svo skögultennurnar sem seldar voru í Evrópu sem fílabein og notaðar í alls konar útskurð.

Það var ekki fyrr en Evrópumenn fara að nema land í Ameríku og síðar þegar veiðimenn vopnaðir skotvopnum fara að hefja veiðar sem fer að ganga á rostungastofninn. Var nánast einungis verið að að slægjast eftir skögultönnunum. Á 16. og 17. öld voru þúsundir rostunga veiddar árlega á svæðinu frá Labrador allt suður að Þorskhöfða. Við lok 19. aldar voru rostungar algjörlega horfnir fyrir sunnan Labrador og var þá leitað norðar til veiða. Til marks um fjölda veiðidýra má nefna að við strendur Baffinslands í Kanada voru um 175 þúsund rostungar drepnir á árunum 1925 til 1931. Var svo komið um miðja 20. öld að Atlantshafsstofninn var nánast útdauður og var hann þá friðaður. Hefur hann átt erfitt með að ná sér á strik aftur og er enn aðeins brot af upphaflegri stærð. Áætlað er að í Atlantshafsstofnunum séu nú 22.500 rostungar (sex þúsund við Svalbarða og Rússlandsstrendur, tólf þúsund í Kanada og hálft fimmta þúsund við Grænland). Hins vegar er Kyrrahafsstofninn mun stærri eða um 200 þúsund dýr.

Nú mega einungis frumbyggjar, svo sem Inúítar, veiða rostunga og þá undir ströngu eftirliti. Má sem dæmi nefna að veiðiheimildin fyrir Vestur-Grænland árið 2007 var 67 dýr.

Rostungar við Ísland

Rostungar eru nú á tímum sjaldgæfir flækingar við Íslandsstrendur. Talsverðar beinaleifar rostunga hafa þó fundist á Íslandi, einkum á Vesturlandi. Sýnt er því að rostungar voru tíðir flækingar við strendur Íslands allt fram á 19. öld, þó aðallega á Vestfjörðum, Snæfellsnesi og við sunnanverðan Faxaflóa.

Engar ritaðar heimildir eru til um rostunga eða rostungaveiðar á landnámsöld. Frásagnir af komum rostunga hingað virðast síðan aðeins heyra til undantekninga. Hins vegar eru allnokkur örnefni sem benda til þess að rostungar hafi ekki verið mjög sjaldgæf sjón hér við land fyrr á öldum. Rostungur var í upphafi Íslandsbyggðar nefndur rosmhvalur og eru Romshvalanes eða Rosmhvalanes á fleiri en einum stað og þar að auki eru nokkur Hvallátur og örnefnið Urthvalafjörður sem talið er að eigi við rostunga en ekki hvali.[1]

Rosmhvalir í fornsögum Íslendinga

Þótt rosmhvalur sé ekki nefndur sem lífvera í fornsögum Íslendinga kemur nafnið fram á nokkrum stöðum í staðarnafninu Rosmhvalanes. Þekktasta nesið með þessu nafni er Rosmhvalanes á Reykjanesskaga, oftar þó kallað Miðnes.

Landnámabók segir svo frá í 45. kafla:

Ketill gufa hét maður Örlygsson, Böðvarssonar, Vígsterkssonar; Örlygur átti Signýju Óblauðsdóttur, systur Högna hins hvíta. Ketill son þeirra kom út síð landnámatíðar; hann hafði verið í vesturvíking og haft (úr) vesturvíking þræla írska; hét einn Þormóður, annar Flóki, þriðji Kóri, fjórði Svartur og Skorrar tveir. Ketill tók Rosmhvalanes; sat hann hinn fyrsta vetur að Gufuskálum, en um vorið fór hann inn á Nes og sat á Gufunesi annan vetur.

Landnámabók segir svo frá í 101. kafla:

Steinunn hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.

Grettis saga segir svo frá í 12. kafla:

Þorkell máni hafði þá lögsögu. Var hann þá beiddur úrskurðar. Honum kveðst það lög sýnast að nokkuð hefði fyrir komið þótt eigi væri fullt verð því að svo gerði Steinunn hin gamla við Ingólf afa minn að hún þá af honum Rosmhvalanes allt og gaf fyrir heklu flekkótta og hefir það ekki rift orðið.

Tilvísanir

  1. Svavar Sigmundsson. „Hvaðan kemur nafn eyjaklasans Hvalláturs á Breiðafirði?“. Vísindavefurinn 30.3.2005. http://visindavefur.is/?id=4861 (Skoðað 26.3.2007).

Heimildir

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist
  • Dierauf, Leslie og Frances Gulland, Marine Mammal Medicine, CRC Press, 2001. ISBN 0-8493-0839-9
  • Annales des sciences naturelles. Zoologie et biologie animale. Paris, Masson. ser.10:t.7
  • Encyclopedia of the Arctic, Routledge, 2004. ISBN 978-1-57958-436-8

license
cc-by-sa-3.0
copyright
Höfundar og ritstjórar Wikipedia
original
visit source
partner site
wikipedia IS

Rostungur: Brief Summary ( Icelandic )

provided by wikipedia IS

Rostungur öðru nafni rosmhvalur (fræðiheiti: Odobenus rosmarus) er stórt hreifadýr sem lifir við sjó á Norðurslóðum. Af honum eru tvær undirtegundir, önnur í Norður-Atlantshafi sem nefnd er Odobenus rosmarus rosmarus og hin í Kyrrahafi, á hafsvæðunum við og á milli Alaska og Austur-Síberíu, og er sú nefnd Odobenus rosmarus divergens. Lítill munur er á tegundunum en þó er Atlantshafstegundin heldur minni.


license
cc-by-sa-3.0
copyright
Höfundar og ritstjórar Wikipedia
original
visit source
partner site
wikipedia IS