dcsimg
Image of Iceland scallop
Creatures » » Animals » » Molluscs » Mussels » » Scallops »

Iceland Scallop

Chlamys islandica (O. F. Müller 1776)

Hörpudiskur ( Icelandic )

provided by wikipedia IS

Hörpudiskur (fræðiheiti: Chlamys islandica) er sælindýr af diskaætt og er hann langstærsta og algengasta tegund ættarinnar hér við land. Hörpudiskur þykir góður til átu.

Við Ísland lifa 11 tegundir diska og er hörpudiskurinn stærstur af þeim og eina tegundin sem hefur verið nytjuð [1]

Vöxtur og aldur

 src=
Hörpudiskur. Landaður afli í tonnum á Íslandsmiðum[2]

Aldursgreining við Grænlandsströnd leiddi í ljós að allt að 40% af stofninum væri eldri en 21 árs og þar fundust einstaklingar sem taldir voru eldri en 35 ára. Í Noregi hafa fundist einstaklingar sem hafa náð allt að 23 ára aldri[3].

Við Ísland er talið að hörpudiskurinn geti orðið yfir 20 ára gamall [4] Vaxtarhraði og hámarksstærð hörpudiska ræðst af hitastigi sjávar og fæðuframboði og er þar af leiðandi breytilegur eftir svæðum. Vöxtur dýrsins er hraðastur í upphafi en úr honum dregur þegar dýrið eldist. Í Breiðafirði nær hörpudiskurinn 60 mm hæð (þykkt) við u.þ.b. 6 ára aldur og telst þá hluti veiðistofnsins. Við Grænlandsstrendur tekur það hörpudiskinn 9 ár að ná þessari stærð og 7 ár í Norður-Noregi . Algeng stærð á hörpudiski við Ísland er 80-100 mm en heyrst hefur um hörpudiska í Jökulfjörðum á Vestfjörðum sem náðu 140 mm þykkt [5]

Afrán

Ýmsar krabba- og fiskitegundir éta smærri hörpudiska. Við Ísland hefur hörpudiskur fundist í steinbít , ýsu, þorski og ýmsum flatfiskategundum. Krossfiskar éta bæði stórar og smáar hörpuskeljar með því að þröngva sér inn í skelina og melta hana með úthverfum maga. Í Norður-Noregi eru kóngakrabbi, æðarfugl og æðarkóngur allt afræningjar hörpuskelja[6].

Sjúkdómar og sníkjudýr

Flesta sjúkdóma í hörpudiski má rekja til frumdýra og árið 2002 fundust tvenns konar sýkingar í villtum hörpudiski sem rekja má til frumdýra. Frumdýrin virtust annars vegar sýkja hjartað og hins vegar blóðfrumunnar. Frumdýrið sem sýkir blóðfrumunnar veldur miklum skaða. Sumir telja að þessar sýkingar hafi verið megin orsakavaldur að hruni hörpudisksstofnsins. Aðrir telja hins vegar að hrunið eigi sér flóknari skýringar og sé sambland af ofveiði, sýkingum, hækkandi hitastigi sjávar og fleiri umhverfisþáttum [7].

Kynþroski og hrygning

Við Ísland verður hörpudiskurinn kynþroska við 4-5 ára aldur. Karldýrið myndar hvítleitan sviljasekk en kvendýrið bleikan eða appelsínurauðan hrognasekk. Hörpudiskurinn hrygnir einu sinni á ári, í júlí, og verða lirfunar botnlægar í september eftir að hafa verið sviflægar í 6-8 vikur.[8]

Veiðar á hörpudiski við Ísland

 src=
Veiðisvæði við ísland 1995-2003. Dekkstu svæðin sýna mestan afla (tonn/sjm²)[9]

Veiðar á hörpudiski við Íslandsstrendur hófust árið 1969 frá Bolungarvík við Ísafjarðardjúp. Árið 1970 fundust gjöful mið í Breiðafirði og hafa langmestar veiðar verið þar. Helstu veiðisvæði við Íslandsstrendur, fyrir utan Breiðafjörð, eru Húnaflói, Ísafjarðardjúp og Arnarfjörður . Enginn hörpudiskur hefur verið veiddur á Íslandsmiðum síðan árið 2003. [10] Vel gekk með tilraunaveiðar á hörpudiski í Breiðafirði sumarið 2014. Menn eru hóflega bjartsýnir á að hægt sé að byrja aftur að veiða nokkur hundruð tonn á ári [11]

Veiðar á hörpudiski á erlendum miðum

Við vesturströnd Norður-Ameríku er löng hefð fyrir veiðum á hörpudiski og öðrum diskategundum . Afli við norðaustanverðan St. Lawrence flói hefur oft farið upp í 3000 tonn af hörpudiski, en úr því má fá 300 tonn af vöðva. Í Noregi eru heimildir um veiðar á hörpudiski frá 1770 og var hann þá notaður sem beita á línuveiðum. Norðmenn byrjuðu að veiða hörpudisk við Jan Mayen árið 1985 og árið eftir veiddu þeir þar 13.000 tonn. Lágt stofnstærðarmat árið 1987 leiddi til þess að svæðinu var lokað. Við Svalbarða voru veidd 2000 tonn árið 1986 og árið eftir fór veiðin upp í 40.000 tonn. Árið 1988 fór veiðin niður í 8000 tonn og var á næstu árum 2000-7000 tonn, þangað til 1992 þegar svæðinu var lokað. Miklar veiðar voru við Bjarnarey (Svalbarða) árin 1987-1992 en þá var veiðum þar einnig hætt vegna ofveiði. Grænlendingar hófu veiðar á hörpudiski árið 1983 í litlum mæli en árin 1988-1992 var landað 400–1900 tonnum. Síðan 1995 hefur veiðin verið í kringum 1200-2600 tonn á ári [12]

license
cc-by-sa-3.0
copyright
Höfundar og ritstjórar Wikipedia
original
visit source
partner site
wikipedia IS

Hörpudiskur: Brief Summary ( Icelandic )

provided by wikipedia IS

Hörpudiskur (fræðiheiti: Chlamys islandica) er sælindýr af diskaætt og er hann langstærsta og algengasta tegund ættarinnar hér við land. Hörpudiskur þykir góður til átu.

Við Ísland lifa 11 tegundir diska og er hörpudiskurinn stærstur af þeim og eina tegundin sem hefur verið nytjuð

license
cc-by-sa-3.0
copyright
Höfundar og ritstjórar Wikipedia
original
visit source
partner site
wikipedia IS