dcsimg

Urriði ( Icelandic )

provided by wikipedia IS

Urriði (fræðiheiti: salmo trutta) er ferskvatnsfiskur sem finnst í velflestum ám og vötnum á Íslandi. Hann er silfurlitaður með áberandi brúnum doppum á kroppnum. Á hryggningartíma dökknar hann og hængar mynda krók á neðri skolti. Urriðinn hrygnir að hausti og fram að áramótum. Hann er gjarnan 0,5 til 1 kíló að stærð þó fiskar yfir 15 kíló hafi veiðst, t.d. í Þingvallavatni. Fiskurinn er bæði til staðbundinn og sjógenginn, en þá lifir hann í sjó en gengur upp í ferskvatn til hrygningar og er þá kallaður sjóbirtingur. Urriði er góður matfiskur og vinsæll hjá sportveiðimönnum um allan heim.

Sjóbirtingur er 2-5 ára gamall þegar hann yfirgefur uppeldisstöðvar sínar í ferskvatni og heldur út á haf. Það gerist oftast að vorlagi. Á haustin (september/október) gengur urriði síðan aftur í árnar þar sem hann ólst upp og hefur þar vetursetu en gengur á haf út á nýjan leik næsta vor. Urriði sem ekki gengur í sjó dvelur fyrstu ár ævi sinnar í ánni en gengur síðan í stöðuvatn. Þar verður urriðinn fram að kynþroska en fer þá í nærliggjandi á til að hrygna. Urriðavötn eru algeng í íslenskri náttúru og má þar nefna Þingvallavatn og Veiðivötn.

license
cc-by-sa-3.0
copyright
Höfundar og ritstjórar Wikipedia
original
visit source
partner site
wikipedia IS